19. mars 2025

Starfsemi SL lífeyrissjóðs árið 2024

Í gær, 18. mars 2025, staðfesti stjórn SL lífeyrissjóðs ársreikning fyrir árið 2024.  Heildareignir í árslok 2024 námu samtals 292,2 milljörðum og var ávöxtun ársins góð.

„Árið 2024 var sjóðnum hagstætt og jukust eignir hans um 27,2 milljarða króna,” segir Sigurbjörn Sigurbjörnsson framkvæmdastjóri SL lífeyrissjóðs. „Ávöxtun samtryggingardeildar nam 11,7% sem gerir 6,6% raunávöxtun. Það er einnig ánægjulegt að tryggingafræðilega staða sjóðsins er í mjög góðu jafnvægi um þessar mundir en hún segir fyrir um getu sjóðsins til að standa við lífeyrisskuldbindingar sínar.  Þá er langtímaávöxtun mjög góð og hefur sjóðurinn skilað að jafnaði árlegri 9,7% nafnávöxtun síðastliðin 30 ár sem gerir 4,7% raunávöxtun. Þessi góða ávöxtun hefur orðið til þess að fimm sinnum hefur sjóðurinn aukið lífeyrisgreiðslur umfram verðlag. Séreignarleiðir sjóðsins gengu einnig vel og skiluðu allar þrjár leiðir sjóðsins jákvæðri ávöxtun.“


Lífeyrisþegar og lífeyrisgreiðslur

Á árinu 2024 greiddu 12.311 einstaklingar iðgjöld til sjóðsins, alls um 6.297 m. kr. Þá greiddu 2.570 launagreiðendur iðgjöld fyrir starfsmenn sína á árinu. Virkir sjóðfélagar voru 5.617. Samtals hækkuðu iðgjöld um 10,9% frá fyrra ári. Fjöldi sjóðfélaga með réttindi hjá sjóðnum eru 152.832 einstaklingar. Hlutfall lífeyris af hreinni eign var 3,5% í árslok 2024. Á liðnu ári hófu 2.127 sjóðfélagar töku eftirlaunalífeyris samanborið við 1.820 árið áður. 



Lífeyrisþegum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum. Í árslok 2024 voru lífeyrisþegar alls 22.514 samanborið við 4.352 í árslok 2007 og hefur fjöldinn því rúmlega fimmfaldast á átján árum. Á þessu tímabili hefur lífeyrisþegum fjölgað að meðaltali um 9,7% á ári og lífeyrisgreiðslur hafa nær 16 faldast og hækkað um 17,2% á ári að jafnaði síðan 2007. 


Lífeyrisgreiðslur úr samtryggingardeild námu 10.039 milljónum króna og hækkuðu um 12,6% milli ára. Ein meginskýringin er sú að frá 1. janúar 2023 breyttust samþykktir sjóðsins þannig að hægt er að taka lífeyri frá 60 ára aldri í stað 65 ára aldurs áður. Margir sjóðfélagar kusu eftir það að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri. Jafnframt eru réttindi þeirra sem hefja töku lífeyris hærri með hverju árinu sem líður. 



Öflug langtímaávöxtun

SL lífeyrissjóður hefur alla tíð verið varfærinn langtímafjárfestir sem hefur það að markmiði að hámarka lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga sinna og tryggja þeim bestu lífeyrisréttindi sem kostur er á, en sjóðurinn hefur aldrei þurft að skerða lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga. Litið yfir tuttugu ára tímabil hefur sjóðurinn verið með eina bestu langtímaávöxtunina á meðal íslenskra lífeyrissjóða. 


Starfsemi sjóðsins er í tveimur deildum, samtryggingardeild og séreignardeild. Hrein eign samtryggingardeildar nam 287.381 m.kr. í árslok og óx um 10,2% eða 26.663 m.kr. milli ára. Hrein nafnávöxtun ársins 2024 var 11,7% samanborið við 10,7% árið áður. Hrein raunávöxtun var 6,6% samanborið við 2,5% árið á undan. Fimm ára meðaltalsraunávöxtun nam 4,3%, meðaltalsraunávöxtun sl. 10 ára nam 4,6% og sl. 20 ára 4,2%.


Farið verður nánar yfir afkomu á ársfundi SL lífeyrissjóðs sem verður haldinn þann 11. apríl nk. á Reykjavik Hilton Nordica kl. 16.00. 
Allir sjóðfélagar velkomnir.


Hér má finna helstu tölur um afkomu ársins 2024, smellið á hlekk fyrir yfirlit yfir starfsemina. 




Fleiri fréttir

Sjá allar fréttir
Mynd með frétt
24.mar. 2025

Ársfundur SL 2025

Ársfundur SL lífeyrissjóðs verður föstudaginn 11. apríl 2025 kl. 16:00 á Hilton Nordica Reykjavík, Suðurlandsbraut 2...
Lesa meira
Sjá allar fréttir