19. desember 2024

Nýr framkvæmdastjóri hjá SL lífeyrissjóði

Sigurbjörn Sigurbjörnsson hefur óskað eftir því við stjórn SL lífeyrissjóðs að láta af störfum sem framkvæmdastjóri sjóðsins í maí á næsta ári eftir að hafa starfað hjá sjóðnum í 37 ár, þar af sem framkvæmdastjóri síðan 1. október 1997. Guðmundur Stefán Steindórsson, sviðsstjóri áhættustýringar, mun taka við sem framkvæmdastjóri þann 1. júní 2025.

„Þetta hefur verið langur og farsæll tími og ég hef verið afar heppinn með samstarfsfólk og stjórn.“ segir Sigurbjörn. „Ég tel þetta vera hárréttan tímapunkt fyrir þessa breytingu, staða SL lífeyrissjóðs er mjög góð, það stefnir í góða ávöxtun á árinu 2024 og starfsemin er mjög traust. Í minni framkvæmdastjóratíð hafa tíu lífeyrissjóðir sameinast SL, ávöxtun verið mjög góð, eignasafnið er traust, réttindi sjóðfélaga eru í jafnvægi og starfsemi sjóðsins vottuð. Geng ég því mjög sáttur frá borði.”

SL lífeyrissjóður eru sá sjóður sem skilað hefur hvað bestri ávöxtun sé horft til langs tíma og hefur sjóðurinn aldrei skert lífeyrisgreiðslur. Þá hefur sjóðurinn aukið réttindi lífeyrisþega fimm sinnum.

Guðmundur Stefán Steindórsson, sviðsstjóri áhættustýringar, tekur við stöðu framkvæmdastjóra sjóðsins í júní á næsta ári. Guðmundur hefur starfað hjá SL lífeyrissjóði frá árinu 2016 sem sviðsstjóri áhættustýringarsviðs. Hann hefur komið að fjölbreyttum verkefnum innan sjóðsins og þekkir starfsemina afar vel. Guðmundur er verkfræðingur, fæddur árið 1980 og hafði víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði áður en hann hóf störf fyrir SL lífeyrissjóð.

„Ég þakka traustið sem mér er sýnt af hálfu stjórnar.” segir Guðmundur. „Ég þekki mjög vel til SL lífeyrissjóðs og þess öfluga starfsfólks sem hjá honum starfar og er
fullur tilhlökkunar að taka að mér þetta nýja hlutverk.“

Sigurbjörn   
Sigurbjörn Sigurbjörnsson

 Guðmundur
Guðmundur Stefán Steindórsson

„SL lífeyrissjóður hefur verið varfærinn lífeyrissjóður undir stjórn Sigurbjörns og skilar hann mjög góðu búi sem Guðmundur þekkir vel.“ segir Magnús Björn Jónsson, stjórnarformaður hjá SL lífeyrissjóði. „Stjórn þakkar Sigurbirni kærlega fyrir hans störf fyrir SL lífeyrissjóð og sjóðfélaga hans. Sigurbjörn hefur sinnt sjóðnum af samviskusemi og trúmennsku, sjóðurinn hefur vaxið og dafnað undir hans stjórn og eignir margfaldast. Þá er það ákaflega mikilvægt að aldrei hafi þurft að skerða greiðslur lífeyrisþega sem og að sjóðurinn hafi skilað ávöxtun sem er með því besta sem gerist hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Það er mat stjórnar að mikilvægt sé að halda áfram þeim góðu starfsháttum og verklagi sem byggt hefur verið upp hjá sjóðnum. Stjórn var því sammála um að ráða Guðmund sem framkvæmdastjóra.”