28. febrúar 2023

Samtöl lífeyrissjóða við ríkið engu skilað

Fundur tuttugu lífeyrissjóða, stærstu eigenda skuldabréfa ÍL-sjóðs, telur að óbreyttu ekki grundvöll fyrir samningaviðræðum við fjármálaráðuneytið um uppgjör skuldbindinga sjóðsins. Fulltrúar ráðuneytisins hafa ekki komið til móts við kröfur lífeyrissjóðanna um fullar efndir af hálfu íslenska ríkisins í umleitunum þess um mögulegt uppgjör.

Íslenska ríkið ber ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum ÍL-sjóðs. Áætlun fjármálaráðherra um slitameðferð og uppgjör á skuldbindingum sjóðsins án tillits til vaxtagreiðslna í framtíðinni felur í sér skerðingu eignarréttinda sem brýtur í bága við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Um það liggja fyrir ítarlega rökstudd lögfræðiálit LOGOS lögmannsþjónustu og Róberts Spanó, fyrrverandi forseta Mannréttindadómstóls Evrópu. Hugmyndir fjármálaráðherra um uppgjör sem ekki felur í sér fullar efndir af hálfu íslenska ríkisins eru því óásættanlegar.

Svör fjármálaráðherra á Alþingi um málið í síðustu viku koma á óvart hvað varðar ummæli um að ekki sé verið að óska eftir samkomulagi um skerðingu eigna. Boðaðar ráðstafanir í tengslum við slit ÍL-sjóðs, sem miða að því að lækka verulega fjárhagslegar skuldbindingar íslenska ríkisins með lagasetningu náist ekki samningar, leiða að óbreyttu til tugmilljarða króna tjóns lífeyrissjóðanna og þar með almennings í landinu í formi tapaðra lífeyrisréttinda. Við blasir að látið yrði reyna á allar slíkar aðgerðir fyrir dómstólum.

Lífeyrissjóðirnir hafa ríkum lögbundnum skyldum að gegna gagnvart sínum umbjóðendum, sjóðfélögum. Þessar skyldur útiloka gerð samkomulags af því tagi sem felst í uppleggi fjármálaráðuneytisins. Á meðan ekki er komið til móts við grundvallarkröfur lífeyrissjóðanna um fullar efndir þjóna samningaviðræður við fjármálaráðuneytið því ekki tilgangi. Um það er full samstaða meðal sjóðanna.

Fleiri fréttir

Sjá allar fréttir
Mynd með frétt
21.nóv. 2024

Þarf sjálfstætt starfandi eða verktaki að greiða í lífeyrissjóð?

Á undanförnum árum hefur aukist mikið að fólk kjósi að vinna á eigin vegum sem verktaki, eða giggari, sem vinnur fyrir...
Lesa meira
Sjá allar fréttir