Ný lög um lífeyrissjóði og áhrif þeirra á sjóðfélaga
Núna um áramótin, 1. janúar 2023 taka í gildi ný lög um skyldutryggingu og starfsemi lífeyrissjóða, sem kveða á lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð einstaklings hækki úr 12% í 15,5%. Breytingin nær fyrst og fremst til launagreiðenda og sjálfstæðra atvinnurekenda, þar sem mótframlag þeirra hækkar úr 8% í 11,5%. Undantekning er ef kjarasamningur sem starfað er eftir kveður enn á um 8% mótframlag, en það er líklegt að það muni breytast við gerð nýs samnings.
Í stuttu máli gerist eftirfarandi:- Heildariðgjald í lífeyrissjóð einstaklings hækkar úr 12% í 15,5%, þar af er mótframlag launagreiðenda verður 11,5% en framlag launþega er áfram það sama eða 4%.
- „Tilgreind séreign“, sem áður var hluti af kjarasamningum ASÍ og SA verður núna lögfest fyrir alla launþega í landinu og getur þannig orðið hluti af skyldutryggingum sjóðfélaga. Launþegi getur sjálfur ákveðið hvort hann setji þetta aukna framlag vinnuveitenda að hluta eða alveg í tilgreinda séreign, eða láta iðgjaldið renna í samtryggingu fyrir aukin lífeyrisréttindi í samtrygginu. Tilgreind séreign er ekki hefðbundin frjáls séreign og lýtur aðeins öðrum lögmálum.
- Velji sjóðfélagi að tilgreind séreign fari ekki í aukin lífeyrisréttindi í samtryggingu má úttekt hefjast við 62 ára aldur og verður hún alveg laus við 67 ára aldur.
- Sjóðfélaga verður heimilt að ráðstafa tilgreindri séreign skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign að tilteknum uppfylltum skilyrðum.
- Tilgreind séreign verður hluti af lágmarksiðgjaldi í lífeyrissjóð og mun þannig skerða greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins (TR). Engar skerðingar verða hjá þeim sem þegar eru komnir á lífeyri hjá TR eða hefja töku um næstu áramót. Viðbótarséreignarsparnaður sjóðfélaga þar sem hlutur launagreiðenda er 2% og launþega 4% hefur ekki áhrif á lífeyrisgreiðslur frá TR.
Þessar breytingar eiga rætur sínar að rekja til stöðugleikasáttmála ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins sem gerður var árið 2019. Við gerð lífskjarasamninganna var ríkistjórnin m.a. búin að lofa að lögfesta hið hækkaða mótframlag, þannig að það næði til allra launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga og er það að raungerast núna um þessi áramót. Ef þú hefur spurningar varðandi þessar breytingar og hvaða áhrif þær hafa á þig, þá vinsamlegast hafðu samband við ráðgjafa hjá okkur í síma 510 7400 eða á netfangið sl@sl.is