24. nóvember 2022

Afar sterk lagaleg staða lífeyrissjóða vegna fyrirhugaðra slita ÍL-sjóðs

Fyrirhuguð lagasetning fjármálaráðherra um gjaldþrot eða sambærileg skuldaskil ÍL-sjóðs fer í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta er meðal þess sem efnislega kemur fram í lögfræðiáliti LOGOS sem unnið var fyrir íslenska lífeyrissjóði og kynnt var á fundi þeirra fyrr í dag. Er í áliti LOGOS vitnað til þess að slíkt inngrip fæli í sér eignarnám eða annars konar skerðingu eignarréttinda sem færi í bága við stjórnarskrá og skapaði íslenska ríkinu bótaskyldu gagnvart skuldabréfaeigendum.

Þá kemur fram í lögfræðiálitinu að fjármálaráðherra beri beina ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðs eftir þær breytingar sem urðu á Íbúðalánasjóði við lagabreytingu árið 2019. Í áliti LOGOS er vitnað til þess að ÍL-sjóður hafi orðið til þegar Íbúðalánasjóði var skipt upp með lögum árið 2019 en með þeim var fjármálaráðherra falin yfirumsjón með sjóðnum. Við breytinguna hafi ÍL-sjóður orðið hluti verkefna fjármála- og efnahagsráðuneytis sem fari með daglega stjórn sjóðsins. Þannig sé ÍL-sjóður ekki undirstofnun ráðherra, enda hafi fjármálaráðherra stjórnsýslu- og rekstrarlegt forræði yfir sjóðnum. ÍL-sjóður teljist því ekki sérstök undirstofnun, heldur hluti ráðuneytisins. Þannig sé íslenska ríkið skuldari frekar en ábyrgðarmaður. Það sé jafnframt í samræmi við þau sjónarmið að færa sjóðinn undir A-hluta ríkisreiknings frá áramótum. Samkvæmt þessu ber fjármálaráðherra beina ábyrgð á sjóðnum og skuldbindingum hans að áliti LOGOS.

Ennfremur kemur fram í álitinu að ákveði fjármálaráðherra að slíta sjóðnum með þeim afleiðingum að kröfur á hendur þrotabúinu falli í gjalddaga muni íslenska ríkið ótvírætt bera ábyrgð á núverandi og framtíðarskuldbindingum samkvæmt skilmálum skuldabréfanna ásamt dráttarvöxtum.

Lögfræðiálit LOGOS er umfangsmikið og undirstrikar afar sterka stöðu íslenskra lífeyrissjóða vegna yfirlýstra markmiða fjármálaráðherra um breytingar á ÍL-sjóði sem að óbreyttu myndi líklega kalla á tugmilljarða króna tjón fyrir almenning í formi skertra lífeyrisréttinda.


Sjá álit Logos og kynningu á niðurstöðum álitsins.


Fleiri fréttir

Sjá allar fréttir
Mynd með frétt
04.jún. 2024

SL með bestu ávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóða árið 2023

Við höfum getað státað okkur af því að vera sá lífeyrissjóður á landinu sem hefur boðið sjóðfélögum sínum upp á eina...
Lesa meira
Sjá allar fréttir