27. júní 2017

Hækkun mótframlags – tilgreind séreign

Með samkomulagi Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) í janúar 2016 var ákveðið að mótframlag launagreiðenda á almennum vinnumarkaði skyldi hækka í áföngum úr 8% í 11,5%. Fyrsti áfanginn tók gildi 1. júlí 2016 þegar mótframlagið hækkaði í 8,5%. Annar áfangi tekur gildi 1. júlí næstkomandi þegar mótframlagið hækkar um 1,5% og verður því 10%. Á næsta ári eða 1. júlí 2018 hækkar mótframlag vinnuveitanda á ný um 1,5% og verður þá mótframlagið samtals 11,5%. Þar með verður heildariðgjaldið orðið 15,5% af launum. Samtals greiðir þá einstaklingur 4% af launum og launagreiðandi 11,5%.

Athugið að nú á hækkunin aðeins við þá sem taka laun samkvæmt samkomulagi ASÍ og SA eða hafa samið um hærra mótframlag en lögbundið er.

Samkvæmt ofangreindu samkomulagi ASÍ og SA er enn fremur innleidd sú nýjung að sjóðfélaginn hefur val um ráðstöfun hækkunarinnar í tilgreinda séreign. Ef ekkert er aðhafst fer viðbótariðgjaldið allt í samtryggingu.

Tilgreind séreign verður eign sjóðfélagans, en útgreiðsla háð öðrum reglum en hinnar almennu frjálsu séreignar. Tilgreind séreign er laus til útgreiðslu frá og með 62 ára aldri sjóðfélaga eftir ákveðnum reglum. Tilgreind séreign er erfanleg eins og aðrar einkaeignir samkvæmt ákvæðum erfðalaga. Tilgreinda séreign má hins vegar ekki nýta til greiðslu inn á fasteignalán samkvæmt sérstökum ráðstöfunum stjórnvalda, ólíkt frjálsu séreigninni, og tilgreinda séreign má heldur ekki nýta til íbúðakaupa.

Stjórn sjóðsins hefur þegar samþykkt tillögu um breytingar á samþykktum sjóðsins. Sú tillaga var kynnt á ársfundi sjóðsins þann 30. maí sl. og bíður sjóðurinn eftir að þær breytingar verði samþykktar af fjármála– og efnahagsráðuneytinu.

Fleiri fréttir

Sjá allar fréttir
Mynd með frétt
22.apr. 2024

Útsending yfirlita til sjóðfélaga

Þann 15. apríl sl. voru yfirlit sjóðfélaga birt á Ísland.is og á sjóðfélagavef SL sem má finnu undir þjónustuvefir.
Lesa meira
Sjá allar fréttir