Séreignalífeyrissparnaður er almennt utan tekjutenginga
Vegna frétta Ríkisútvarpsins um áhrif sem úttekt séreignalífeyrissparnaðar hefur á tekjutengingar í almannatryggingakerfinu telja Landssamtök lífeyrissjóða ástæðu til að árétta að séreignalífeyrissparnaður hefur almennt ekki áhrif á útreikning lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Breytir þá engu hvort séreignasparnaðurinn er greiddur út mánaðarlega eða sjaldnar. Einu tilvikin sem séreignalífeyrissparnaður getur haft áhrif á útreikning greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins er þegar um er að ræða uppbót á lífeyri td. vegna mikils lyfjakostnaðar eða við svokallaða lágmarksframfærslutryggingu sem tryggir lífeyrisþegum lágmarksgreiðslu ef tekjur þeirra eru undir tilteknum tekjuviðmiðum. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun fá í dag um 11 þúsund lífeyrisþegar lágmarksframfærslutryggingu en af þeim hópi eru innan við 170 sem jafnframt eru með séreignasparnað sem getur haft áhrif á greiðslur til þeirra.