1. Lánaréttindi
- Lán eru veitt til sjóðfélaga SL lífeyrissjóðs.
- Lánaréttindi hefur sá sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins og á réttindi, annað hvort í samtryggingardeild eða séreignardeild.
- Sjóðurinn veitir félögum bæði verðtryggð lán sem og óverðtryggð lífeyrissjóðslán. Áskilið er að viðkomandi hafi greitt iðgjöld fyrir sex af síðustu tólf mánuðum af eðlilegu endurgjaldi fyrir vinnu í þágu annara eða eigin atvinnustarfsemi. Sjóðfélagi með 36 mánaða iðgjaldasögu hefur einnig lánarétt hjá sjóðnum. Miði lántaka einungis að endurfjármögnun eldri lána frá SL lífeyrissjóði er sjóðnum heimilt að víkja frá ofangreindum skilyrðum.
- Hægt er að velja blöndu af verðtryggðu og óverðtryggðu láni.
- Allir þinglýstir eigendur veðsettrar eignar þurfa að vera greiðendur að láninu.
- Lágmarks lánsfjárhæð er kr. 1.000.000.- og hámarks lánsfjárhæð er kr. 65.000.000.-. Sjóðnum er heimilt að fallast á lánsumsóknir fyrir hærri fjárhæð, ef lántaka miðar eingöngu að endurfjármögnun eldri lána frá sjóðnum.
2. Verðtryggð lán
Lánsfjárhæð, lánstími og kjör
- Lágmarks lánsfjárhæð er kr. 1.000.000.- og hámarks lánsfjárhæð er kr. 65.000.000.- en lánsfjárhæð er að öðru leyti ótakmörkuð á meðan veðrými leyfir að uppfylltu greiðslu- og lánshæfismati.
- Veðhlutfall er allt að 65% skv. viðmiðunarreglum sjóðsins. Sjóðnum er heimilt að fallast á lánsumsóknir fyrir veðhlutfall allt að 75%, ef lántaka miðar eingöngu að endurfjármögnun eldri lána frá sjóðnum.
- Lánstími er 5 - 40 ár og endurgreiðist lán með tólf gjalddögum á ári.
- Lánin eru verðtryggð samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
- Hægt er að velja um lán með jöfnum afborgunum eða jöfnum greiðslum vaxta og höfuðstóls (annuitets lán), sem taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
- Val er um vaxtakjör með breytilegum eða föstum vöxtum. Gildandi vextir eru birtir á heimasíðu sjóðsins.
Lán með föstum vöxtum:
Fastir vextir á verðtryggðum lánum eru ákvarðaðir af stjórn sjóðsins og miðast við útgáfudag skuldabréfs og taka ekki breytingum á lánstíma. Ekki er hægt að breyta vaxtakjörum verðtryggðs láns með föstum vöxtum í breytilega vexti.
Lán með breytilegum vöxtum:
Breytilegir vextir á verðtryggðum lánum eru ákvarðaðir af stjórn sjóðsins og eru yfirfarnir reglulega og taka vextir eldri lána breytingum í samræmi við tilkynningu þess efnis með 30 daga fyrirvara sbr. 35. gr. laga nr. 118/2016. Hægt er að breyta vaxtakjörum verðtryggðs láns með breytilega vexti í fasta vexti óski lántaki þess.
- Aðeins er hægt að breyta verðtryggðu láni með breytilegum vöxtum í verðtryggt lán með föstum vöxtum einu sinni.
3. Óverðtryggð lán
Lánsfjárhæð, lánstími og kjör
- Lágmarks lánsfjárhæð er kr. 1.000.000.- og hámarks lánsfjárhæð er kr.65.000.000.- en lánsfjárhæðin er að öðru leyti ótakmörkuð á meðan veðrými leyfir að uppfylltu greiðslu- og lánshæfismati.
- Veðhlutfall er allt að 75% skv. viðmiðunarreglum sjóðsins.
- Lánstími er 5 - 40 ár og endurgreiðist lán með tólf gjalddögum á ári.
- Lánin eru óverðtryggð og bera nafnvexti sem gilda tvö ár í senn. Á tveggja ára fresti eru vextir endurmetnir.
- Hægt er að velja um lán með jöfnum afborgunum eða jöfnum greiðslum vaxta og höfuðstóls (annuitets lán).
- Lánin bera einungis breytilega vexti en fastir í 24 mánuði í senn. Gildandi vextir eru birtir á heimasíðu sjóðsins.
Lán með breytilegum vöxtum:
- Breytilegir vextir af óverðtryggðum lánum miðast við meðaltalsmarkaðsvexti síðustu þriggja mánaða á þeim flokki óverðtryggðra ríkisskuldabréfa sem lengstan líftíma hefur hverju sinni með 70 punkta álagi, nema stjórn ákveði annað. Getur það komið til þegar verðmyndun (markaðsvextir) á ofangreindum flokki ríkisskuldabréfa er ekki í samræmi við efnahagsþróun á Íslandi s.s. vegna sögulegrar og væntrar verðbólgu, verðbólguálags, áhættumats sjóðsins og þróunar óverðtryggðra vaxta á markaði á sambærilegum/hliðstæðum lánum.
- Vextir sjóðsins af óverðtryggðum lánum gilda við lánveitingar almennt í þrjá mánuði í senn og breytast því á þriggja mánaða fresti gagnvart nýjum lánveitingum. Taka vextirnir gildi 15. dag mánaðar. Þó getur stjórn sjóðsins ákveðið að vextir taki breytingum við annað tímamark og örar en að ofan greinir. Á tveggja ára fresti eru vextir endurskoðaðir á þeim lánveitingum sem sjóðurinn hefur veitt. Geta þeir þá hækkað, lækkað eða haldist óbreyttir. Taka þær breytingar gildi í samræmi við tilkynningu þess efnis með 30 daga fyrirvara sbr. 35. gr. laga nr. 118/2016.
4. Lánsumsókn
Lánsumsókn skal vera skrifleg og skilað á þar til gerðu eyðublaði ásamt eftirtöldum gögnum eftir því sem við á:
- Nýtt veðbókarvottorð af eigninni (sjóðurinn getur útvegað það).
- Nýlegur kaupsamningur liggi hann fyrir.
- Fasteignamat og brunabótamat eignar (sjóðurinn getur útvegað það).
- Eftirstöðvar áhvílandi lána. Ef á undan veðrétti sjóðsins eru önnur áhvílandi lán skulu fylgja umsókninni síðustu greiðsluseðlar viðkomandi lána.
5. Veðtrygging
- Lánað er gegn fasteignaveði í íbúðarhúsnæði lántaka, maka hans eða aðila sem hann er í óvígðri sambúð eða staðfestri samvist með, enda liggi fyrir slík yfirlýsing frá viðkomandi eiganda íbúðarhúsnæðis sem jafnframt staðfestir að lánið sé tekið til hagsbóta fyrir báða aðila. Eigandi veðs verður því samskuldari að láninu með sjóðfélaganum. Trygging fyrir láni í eign annars aðila en að ofan greinir er ekki tekin gild. Sjóðurinn áskilur að báðir einstaklingar í hjúskap eða óvígðri sambúð gerist útgefendur að skuldabréfum, sé veð veitt í heimili þeirra. Sjóðurinn fjármagnar ekki atvinnustarfsemi með sjóðfélagalánum.
- Sjóðurinn áskilur sér fyrsta veðrétt eða óslitna veðröð frá fyrsta veðrétti. Þó er sjóðnum heimilt að veita lán á síðari veðrétt, svo fremi sem þau lán sem ofar eru í veðröðinni en lán sjóðsins nemi að hámarki 20% af verðmæti fasteignarinnar sem lögð er að veði.Verðtryggð lán eru lánuð gegn fasteignaveði sem nemur allt að 65% af söluverði samkvæmt nýlegum kaupsamningi eða fasteignamati viðkomandi eignar, þ.e. lán sjóðsins og uppreiknaðar eftirstöðvar annarra áhvílandi lána mega ekki vera hærri en 65% af söluverði samkvæmt nýlegum kaupsamningi eða fasteignamati og jafnframt innan við 100% af brunabótamati ásamt lóðarmati.
- Óverðtryggð lán eru lánuð gegn fasteignaveði sem nemur allt að 75% af söluverði samkvæmt nýlegum kaupsamningi eða fasteignamati viðkomandi eignar, þ.e. lán sjóðsins og uppreiknaðar eftirstöðvar annarra áhvílandi lána mega ekki vera hærri en 75% af söluverði samkvæmt nýlegum kaupsamningi eða fasteignamati viðkomandi eignar og jafnframt innan við 100% af brunabótamati ásamt lóðarmati.
- Blönduð lán. Hægt er að blanda saman eftir vali lántaka óverðtryggðu og verðtryggðu láni gegn fasteignaveði sem nemur allt að 75% af söluverði samkvæmt nýlegum kaupsamningi eða fasteignamati. Þó þannig að verðtryggt lán getur aldrei orðið hærra en 65% af söluverði samkvæmt nýlegum kaupsamningi eða fasteignamati og jafnframt innan við 100% af brunabótamati ásamt lóðarmati.
- Með nýlegum kaupsamningi er átt við þinglýstan kaupsamning sem er að jafnaði yngri en sex mánaða.
- Meta þarf húseign ef um nýbyggingu er að ræða. Umsókn er ekki tekin til greina nema húseign sé fokheld og það staðfest með vottorði og hún brunatryggð.
- Sömu vaxtakjör gilda óháð veðrétti, lánsfjárhæð og stöðu veðtryggingar miðað við verðmæti húseignar.
- Lán eru veitt með veði í þeirri fasteign sem sjóðfélagi (lántaki) býr í eða hann er skráður eigandi að. Skilyrði er að fyrir liggi gildur og staðfestur kaupsamningur ef lán er tekið vegna fasteignakaupa lántaka. Ekki er lánað t.a.m. til leigufélaga né annarrar atvinnustarfsemi einstaklinga. Heimilt er að hafna veðandlagi (veði) sé það ekki lögheimili lántaka. Áskilinn er réttur til að takmarka fjölda sjóðfélagalána til sjóðfélaga. Sjóðfélagalán eru hvorki veitt gegn veði í sumarbústað né atvinnuhúsnæði fyrirtækja.
6. Mat á greiðslugetu og lánshæfi
- Áður en lán er veitt er lánshæfi umsækjanda metið í samræmi við lög um fasteignalán nr. 118/2016 og reglugerð um fasteignalán til neytenda.
- Greiðslu- og lánshæfismat skal framkvæmt af sjóðnum í samræmi við ofangreind lög og reglugerð. Afhenda skal SL lífeyrissjóði öll fylgigögn vegna greiðslumats. Sjóðnum er heimilt að áskilja að greiðslumat sé undir öllum kringumstæðum unnið þótt framkvæmd greiðslumats sé ekki áskilin að lögum. Greiðslumat skal að jafnaði ekki vera eldra en sex mánaða. Sjóðurinn ber ekki ábyrgð á því ef röng gögn eða upplýsingar eru veittar af hendi lántaka vegna mats á greiðslugetu.
- Kostnað vegna greiðslu- og lánshæfismats sem framkvæmt er í tengslum við lánsumsókn má finna í gjaldskrá sjóðsins.
- Lántaki verður alltaf að geta sýnt fram á að hann hafi tekjur og geti staðið undir reglulegum greiðslum höfuðstóls, vaxta, verðbóta og kostnaðs.
- Hámarks lánfjárhæð þ.e. bæði verðtryggt lán og óverðtryggt lán mega samanlagt ekki nema hærri fjárhæð en kr. 65.000.000 við hverja lántöku þrátt fyrir að veðrými sé til staðar.
- Hámarks lánfjárhæð sjóðsins ásamt því sem áhvílandi er á viðkomandi eign má ekki fara yfir kr. 65.000.000. Er þá átt við lán sjóðsins ásamt því sem er á veðrétti fyrir framan veðrétt sjóðsins.
- Sjóðurinn áskilur sér rétt til að fara fram á að greiðslumat sé unnið vegna umsókna um skilmálabreytingar og/eða skuldaraskipti vegna lána sem þegar hafa verið veitt.
7. Uppgreiðsla á lánum
- Heimilt er að greiða upp bæði verðtryggð lán sem og óverðtryggð lán að hluta eða öllu leyti, hvenær sem er á lánstímanum án sérstaks uppgreiðslugjalds.
8. Kostnaður lántakanda
- Lántakandi greiðir lántökugjald sem er nú 59.600 krónur óháð lánsfjárhæð. Miðast gjaldið við hverja lánsumsókn. Er gjaldið dregið frá andvirði láns við útborgun þess.
- Veðbókarvottorð og þinglýsingargjald.
- Kostnaður vegna lánshæfis- og greiðslumats.
- Kostnaður við mat á fasteign sé þess þörf.
- Kostnaður við skjalagerð, bæði vegna nýrra lána sem og skuldbreytingu eldri lána.
- Lántakendur greiða einnig innheimtukostnað af afborgunum skuldabréfa á hverjum gjalddaga.
9. Upplýsingar til umsækjanda/lántakanda
- Sjóðnum ber að afhenda umsækjanda/lántakanda staðlaðar upplýsingar á þar til gerðu formi svo hann geti tekið upplýsta ákvörðum um lántökuna, sbr. 13. gr. laga nr. 118/2016 um neytendalán.
- Einnig ber að afhenda umsækjanda/lántakanda upplýsingar um sögulega þróun verðlags og vaxta og áhrif þeirra á höfuðstól og greiðslubyrði lána, sbr. 14. gr. sömu laga.
- Lántakanda ber að kynna sér og undirrita eyðublað sjóðsins ,,Staðlaðar upplýsingar um fasteignalán til neytenda.“.
- Lánveitandi mun upplýsa lántakanda um árlega hlutfallstölu kostnaðar og heildarfjárhæð sem lántaki greiðir. Árleg hlutfallstala kostnaðar er heildarlántökukostnaður, lýst sem árlegum hundraðshluta af heildarfjárhæð láns þess sem veitt og er hún reiknuð út í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 118/2016 um neytendalán. Heildarlántökukostnaður er allur kostnaður vegna lántöku, þ.m.t. vextir og verðbætur á lánstíma, lántökugjald, tilkynninga- og greiðslugjald, þóknun, skattar og önnur gjöld að frátöldum þinglýsingarkostnaði. Við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar er miðað við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Sjá nánar í reiknivél á heimasíðu sjóðsins.
- Upplýsingar sjóðsins á heimasíðu hans www.sl.is skulu teljast veittar á varanlegum miðli.
10. Afgreiðsla lánsumsóknar
- Sjóðurinn áskilur sér rétt til að hafna lánsumsókn eða takmarka lánsfjárhæð sé veðstaða ekki innan veðmarka eða umsækjandi standist ekki lánshæfismat eða greiðslumat.
- Stjórn sjóðsins er heimilt að takmarka afgreiðslu lánsumsókna, t.a.m. í tilvikum þar sem fjöldi sjóðfélagalána nálgast hámark samkvæmt fjárfestingarstefnu sjóðsins hverju sinni.
- Lán sem veitt eru samkvæmt þessum lánareglum eru í samræmi við lög nr. 118/2016.
11. Gildistaka
- Reglur þessar koma í stað eldri lánareglna frá 23. júní 2022 og taka gildi 20. september 2023. Undirritaður sem hyggst taka lán hjá sjóðnum hefur lesið og kynnt sér framangreindar lánareglur.
Leiðbeiningar
- Fylla þarf út lánsumsókn.
- Fasteignamat og brunabótamat þurfa að liggja fyrir.
- Veðbókarvottorð.
- Afrit af síðustu greiðsluseðlum lána sem eru á þeirri eign sem skal veðsetja.
- Útvega gögn svo sjóðurinn geti unnið greiðslumat.
- Skila umsóknareyðublaðinu útfylltu ásamt framangreindum fylgigögnum, fasteigna- og brunabótamati, veðbókarvottorði og ljósriti af greiðsluseðlum.
- Gögn og lánshæfi metin endanlega og að uppfylltum skilyrðum eru Landsbanka send gögnin til afgreiðslu.
- Bankinn útbýr skjöl til undirritunar. Bankinn hefur samband við lántaka..
- Lántaki undirritar skjöl í viðurvist votta.
- Lántaki eða umboðsmaður (fasteignasali) fer með undirritað skuldabréf til þinglýsingar hjá sýslumanni.
- Þinglýst skuldabréf afhent Landsbankanum og í kjölfarið er lánsfjárhæð lögð inn á reikning lántaka að frádregnum kostnaði við lántökuna og uppgreiðslu áhvílandi lána að ósk lántaka.
Ábyrgð vegna lántöku
Að gefnu tilefni telur stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda nauðsynlegt að benda á, að í ákveðnum tilvikum hafa lántakendur ekki risið undir þeirri greiðslubyrði sem þeir hafa tekist á hendur. Afleiðingarnar hafa verið þær, að íbúðir sem veðsettar hafa verið vegna lánanna hafa verið seldar á nauðungaruppboði.
Innheimta lána
Greiða ber af lánum á gjalddaga. Sé ekki greitt á gjalddaga reiknast dráttarvextir frá gjalddaga til greiðsludags. Greiðsluseðlagjöld ber að greiða á hverjum gjalddaga skv. gjaldskrá Landsbankans.
Innheimtukostnað banka og kostnað við lögfræðiinnheimtu ber að greiða verði vanskil á greiðslu lánsins.
Innheimtuferlið er eftirfarandi:
- Greiðsluseðill er sendur út til greiðanda um 10 dögum fyrir gjalddaga.
- Ítrekun er send 5 dögum eftir gjalddaga.
- Önnur ítrekun er send 20 dögum eftir gjalddaga sé fyrri ítrekun ekki sinnt.
- Lokaaðvörun er send út um 75 dögum frá gjalddaga.
- Hafi ekki verið greitt 90 dögum eftir gjalddaga er krafan send lögfræðingi til innheimtu, sem hefur verulegan kostnaðarauka í för með sér