SL lífeyrissjóður er langtímafjárfestir
SL lífeyrissjóður setur sér stefnu um stjórnarhætti og sem eiganda í þeim félögum sem hann fjárfestir í. SL lífeyrissjóður hefur það að markmiði að hámarka lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga sinna og tryggja þeim bestu lífeyrisréttindi sem kostur er á með ávöxtun iðgjalda og eigna, áhættustýringu og hagkvæmum rekstri. SL er langtímafjárfestir sem ávaxtar lífeyrissparnað sjóðfélaga sinna í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins.
Stefna sjóðsins sem eiganda er að standa vörð um hagsmuni sjóðfélaga sjóðsins til lengri og skemmri tíma. SL lífeyrissjóður gerir kröfu til ávöxtunar af öllum fjárfestingum sínum. SL gerir jafnframt kröfu til þess að félög, sem sjóðurinn fjárfestir í, sýni ábyrgð gagnvart félagslegum þáttum, umhverfislegum þáttum og að starfað sé í samræmi við viðurkenndar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. SL hefur sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar, en með ábyrgum fjárfestingum er átt við að litið sé til framangreindra þátta við mat, ákvörðun og eftirfylgni fjárfestinga. Við mat á starfsháttum félaga horfir sjóðurinn m.a. til aðstæðna á markaði, laga og almennt viðurkenndra reglna og gilda.
Samfélagsábyrgð félaga
SL lífeyrissjóður væntir þess að skráð félög í eigu sjóðsins vinni ötullega að umbótum á sviði umhverfislegra og félagslegra þátta ásamt stjórnarháttum. Í þessu samhengi leggur SL áherslu á að félög sinni upplýsingagjöf til fjárfesta og almennings af kostgæfni. Þá telur SL æskilegt að stjórnir skráðra félaga í eigu sjóðsins setji sér reglur um siðferði og samfélagslega ábyrgð. Hluthafastefna sjóðsins tekur að öðru leyti mið af reglum hans um ábyrgar fjárfestingar hverju sinni sem m.a. er birt í fjárfestingarstefnu sjóðsins.
Tilnefningar í stjórnir félaga og launakjör stjórnarmanna
Hluthafastefna sjóðsins ákvarðar hvernig sjóðurinn beitir sér sem hluthafi í þeim hlutafélögum sem hann á eignarhlut í. Ef sjóðurinn á verulegan eignarhlut, sem telst vera 5% eða hærri eignarhlutur í félagi, ef eignarhluturinn nemur jafnframt að minnsta kosti 0,5% af heildareignum lífeyrissjóðsins, ráðstafar valnefnd sjóðsins atkvæðisrétti hans í kjöri stjórnarmanna viðkomandi félaga. Framkvæmdastjóri, forstöðumaður eignastýringar, stjórnarformaður og varaformaður stjórnar SL mynda valnefnd sjóðsins.
SL lífeyrissjóður styður að komið sé á fót tilnefningarnefndum hjá skráðum félögum í eigu sjóðsins í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, t.a.m. útgefnar af Viðskiptaráði Íslands, Kauphöll Íslands (Nasdaq Iceland) og Samtökum atvinnulífsins. Sjóðurinn leggur áherslu á að hluthafafundur taki um það ákvörðun og að fulltrúar í tilnefningarnefnd séu kosnir með beinni kosningu á hluthafafundi, nema þegar hluthafafundur samþykkir það fyrirkomulag að stjórn skipi einn stjórnarmann í nefndina. Í þeim tilfellum þar sem að eignarhlutur sjóðsins í félögum er óverulegur eða undir áðurnefndum viðmiðum er horft til tillagna tilnefningarnefnda félaga og rökstuðnings þeirra. SL lífeyrissjóður telur það almennt óheppilegt að einstaklingar í tilnefningarnefndum gegni einnig á sama tíma stjórnarsetu í viðkomandi félagi. Í þeim tilfellum sem ákveðið er að fara ekki eftir tillögum tilnefningarnefnda félaga er það valnefnd sjóðsins sem tekur ákvörðun um hvernig sjóðurinn beitir sínum atkvæðum í stjórnarkjörum skráðra félaga.
Hvorki stjórnarmenn né starfsmenn sjóðsins sitja í stjórnum fyrirtækja í umboði sjóðsins. Stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra er jafnframt óheimilt að sitja í stjórnum fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í. Þetta gildir þó ekki um fyrirtæki sem stofnuð eru til að sinna sérstökum þáttum í starfsemi sjóðsins. Jafnframt við sérstakar aðstæður svo hægt sé að fylgja eftir hagsmunum sjóðsins með fullnægjandi hætti er starfsmönnum heimilt með ákvörðun framkvæmdastjóra að sitja í stjórnum eða ráðum í eignarhaldsfélögum og eða sérhæfðum sjóðum sem lífeyrissjóðurinn á hlut í.
Val á stjórnarmönnum sem sjóðurinn tilnefnir eða styður til stjórnarsetu, byggir á faglegu ferli þar sem bakgrunnur, fagleg þekking, reynsla, færni og hæfi er kannað. Sérstaklega þarf að huga að samsetningu stjórna með hliðsjón af fjölbreyttri þekkingu og reynslu svo og kynjahlutföllum, og að ekki séu árekstrar milli hagsmuna félagsins og annarra hagsmuna sem stjórnarmenn gæta. Stjórnarmenn skulu leggja megin áherslu á að viðkomandi félag skili viðunandi arðsemi svo fjárfesting sjóðsins bæti hag sjóðfélaga til skemmri og lengri tíma.
Við mat á því hverjar séu eðlilegar launagreiðslur fyrir stjórnarsetu í félagi skal litið til umfangs og ábyrgðar starfsins, sem og þess tíma sem stjórnarmenn þurfa að inna af hendi til að geta rækt skyldur sínar við félagið. Telji valnefnd að tillögur fyrir aðalfund um stjórnarlaun séu mjög frábrugðnar því sem hæfilegt er, með hliðsjón af framangreindum matsþáttum, skal valnefnd koma þeim sjónarmiðum á framfæri. Skal það gert annað hvort við viðkomandi stjórn fyrir aðalfund eða með formlegum hætti, svo sem með bókun eða breytingatillögum á aðalfundi.
Fulltrúar sjóðsins í stjórnum félaga skulu standa vörð um hagsmuni félagsins sbr. hlutafélagalög til með því að fylgja bestu viðmiðum um stjórnarhætti fyrirtækja, árangursmælingum, eftirliti og virkri beitingu lagalegra úrræða. Stjórnir hafa eftirlit með því að rekstur félaga fylgi almennum og góðum viðskiptavenjum, gæta þess að samþykktir séu virtar og bestu stöðlum um stjórnarhætti fylgt.
Framkvæmdastjóri SL fer með umboð, þ. á m. atkvæðisrétt á aðalfundum fyrir hönd sjóðsins. Ef framkvæmdastjóri getur ekki mætt á viðkomandi aðalfund fer forstöðumaður eignastýringar með umboð sjóðsins.
Starfskjör helstu stjórnenda
SL lífeyrissjóður gerir kröfu um að starfskjarastefna uppfylli kröfur hlutafélagalaga og taki mið af viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja eins og við á.
SL lífeyrissjóður telur að við ákvörðun starfskjara ætti m.a. að taka mið af eftirfarandi:
a. Að þau stuðli að langtímahagsmunum hluthafa.
b. Að þau hafi skýran rekstrarlegan tilgang.
c. Að þau megi ekki hvetja til óhóflegrar áhættutöku.
Ef um kaupaukagreiðslur eða kaupréttarsamninga er að ræða, skulu hluthafar upplýstir um forsendur og rök fyrir slíkum greiðslum. Upplýsingar um umgjörð þeirra ættu að vera aðgengilegar og fyrirsjáanlegar gagnvart hluthöfum. SL lífeyrissjóður telur almennt vera æskilegt að greinarmunur sé gerður á grunnlaunum og árangurstengdum launum í ársreikningi félagsins sem sjóðurinn á eignarhlut í.
Samkeppnisleg sjónarmið
Til að tryggja sjálfstæði félaganna, og hindra mögulega hagsmunaárekstra vegna fjárfestinga sjóðsins í félögum á sama markaði, hefur sjóðurinn engin áhrif á stefnumótun þeirra umfram það sem á sér stað á opnum hluthafafundum. Sjóðurinn leggur áherslu á að hafa samkeppnissjónarmið til hliðsjónar við mótun eigin fjárfestingar- og hluthafastefnu. Sjóðurinn vill árétta mikilvægi þess að fyrirtæki á samkeppnismarkaði séu sjálfstæð, stundi virka samkeppni sín í milli og sýni ábyrgð gagnvart lögum og reglum er snúa að samkeppni og umhverfi. Sjóðurinn vill leggja að stjórnum félaga þar sem hann á hagsmuna að gæta að fylgja þessum sjónarmiðum. Sjóðnum er ljóst að eignarhald sama aðila á umtalsverðum hlutum í fleiri fyrirtækjum eða samstæðum fyrirtækja á sama markaði kallar á sérstaka aðgæslu af hálfu sjóðsins.
Upplýsingagjöf félaga
SL lífeyrissjóður leggur áherslu á að skráð félög í eigu sjóðsins veiti skýrar og greinargóðar upplýsingar til hluthafa um hagi félagsins, hvort sem er á vef viðkomandi félags, á hluthafafundum eða með öðrum hætti.
Samþykkt af stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda 18. 01.2022