Óskertar lífeyrisgreiðslur frá upphafi
Eignasafn SL lífeyrissjóðs endurspeglar fjárfestingastefnu sjóðsins þar sem fé hans er ávaxtað með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. SL lífeyrissjóður er varfærinn langtímafjárfestir sem hefur aldrei þurft að skerða lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga.
Innlend skuldabréfaeign nam um 109,5 milljörðum króna í árslok 2022 eða um 45,9% af heildareignum sjóðsins. Stærsti hluti skuldabréfasafnsins, um 23%, er með beina eða óbeina ábyrgð ríkissjóðs. Eign sjóðsins í innlendum skráðum hlutabréfum nam 19,9 milljörðum króna í árslok 2022 eða um 8,4% af heildareignum sjóðsins. Erlend verðbréfaeign sjóðsins nam 97,5 milljörðum króna í árslok 2022 eða um 41,1% af heildareignum. Erlenda eignin skiptist þannig að 67,2 milljarðar króna eru fjárfestir í verðbréfasjóðum sem fjárfesta í skráðum hlutabréfum og 30,3 milljarðar króna eru fjárfestir í framtakssjóðum sem fjárfesta í óskráðum hlutabréfum, innviðasjóðum, fasteignasjóðum og erlendum óskráðum lánasjóðum.