Markmið sjóðsins með áhættustýringu er að setja mælanleg viðmið um áhættutöku, að hafa eftirlit með því að áhættan sé innan settra viðmiða og bregðast við ef hún fer út fyrir þau. Þessi mælanlegu viðmið eru því grundvöllur áhættustýringarinnar og eru þau sett fram bæði í áhættustefnu, áhættustýringarstefnu og fjárfestingarstefnu sjóðsins.
Stjórn SL lífeyrisjóðs setur áhættustefnu fyrir sjóðinn. Áhættustefnan nær yfir starfsemi sjóðsins og útvistun til þriðju aðila, bæði hvað varðar fjárhagslega áhættu og rekstraráhættu. Þessi áhættustefna grundvallast á lagafyrirmælum, reglugerð 590/2017 um eftirlitskerfi lífeyrissjóða og stefnumótun sjóðsins. Áhættustefnan er hluti af innra skipulagi sjóðsins og lýsir hún stefnu stjórnar varðandi þá áhættu í starfsemi lífeyrissjóðsins sem hún er reiðubúin að taka í samræmi við markmið og framtíðarsýn sjóðsins. Hvernig þessu eftirliti er háttað til sannprófunar á hlítingu viðmiðanna er lýst í sérstakri áhættustýringarstefnu.
Með skilvirkri áhættustýringu og innra eftirliti hjá SL lífeyrissjóði aukast líkur á því að starfsemi og tryggingafræðileg staða hans verði í góðu horfi og hagsmunir sjóðfélaga vel varðir.
Spurt og svarað
Hlutverk stjórnar samkvæmt lögum er að hafa eftirlit með starfsemi sjóðsins. Liður í því eftirliti er samþykkt og innleiðing áhættustefnu. Á grundvelli hennar felur stjórn framkvæmdastjóra og eftir atvikum öðru starfsfólki sjóðsins umsjón með framkvæmd stefnunnar. Eftirlit stjórnar með framkvæmd stefnunnar byggir m.a. á reglulegri upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar, upplýsingagjöf áhættustýringar til framkvæmdastjóra og stjórnar, árlegri úttekt innri endurskoðunar og starfi endurskoðunarnefndar sjóðsins. Hefur endurskoðunarnefnd, endurskoðandi og innri endurskoðandi sjóðsins mikilvægu hlutverki að gegna við eftirlit með framkvæmd áhættustefnunnar.
Fjárfestingarstefna sjóðsins gegnir mikilvægu hlutverki við áhættustýringu hans. Þar er m.a. markaður rammi fyrir ráðstöfun fjármuna sjóðsins eftir eignaflokkum og takmarkanir á mótaðilaáhættu. Við mótun áhættustefnu fyrir sjóðinn liggur til grundvallar mat á núverandi stöðu sjóðsins og þróun til framtíðar, til að mynda hvað varðar vænt greiðsluflæði, þróun lífeyrisskuldbindinga og samsetningu sjóðfélaga. Einnig er framkvæmd greining á áhrifum mismunandi eignasamsetninga eftir eignaflokkum á vænta áhættu og ávöxtun, t.a.m. á grundvelli svokallaðrar framfallsgreiningar.
Almennt er miðað við varfærna nálgun við stýringu á áhættu sjóðsins og að uppbygging eignasafnsins í heild taki mið af verðtryggðum skuldbindingum gagnvart sjóðfélögum.
Meginmarkmið áhættustýringar er að starfsmenn og stjórn sjóðsins hafi góða yfirsýn yfir þá áhættuþætti sem til staðar eru hjá sjóðnum og geti metið hugsanleg áhrif þeirra á sjóðinn. Með því móti eru starfsmenn sjóðsins betur í stakk búnir til að stýra áhættu hans og, eftir atvikum, forðast áhættu, draga úr áhættu eða auka hana. Sviðsstjóri áhættustýringar heyrir beint undir framkvæmdastjóra og hefur hann heimild til að veita stjórn og endurskoðunar-nefnd beint og milliliðalaust upplýsingar sem lúta að framkvæmd áhættustefnu og áhættustýringar.
Allir áhættuþættir sjóðsins eru skilgreindir í áhættuskrá sjóðsins og eru þeir rúmlega 100 talsins. Hvert svið yfirfer, metur og greinir sína áhættuþætti og mótvægisaðgerðir ársfjórðungslega í samvinnu við áhættustýringu og er sú vinna grundvöllur ýmissa greininga og umbótaverkefna innan sjóðsins. Með þessu móti koma eigendur áhættunnar með beinum hætti að vöktun og eftirfylgni með áhættuþáttum sem tryggir að allir starfsmenn séu meðvitaðir um mikilvægi eftirlitskerfis og hjálpar til við að innleiða viðeigandi áhættumenningu meðal starfsmanna sjóðsins.
Áhættuþætti sjóðsins má flokka undir fimm yfirflokka áhættu sem eru
- Fjárhagslega áhættu (markaðsáhætta)
- Mótaðilaáhætta
- Lífeyristryggingaáhætta (skuldbindingaáhætta)
- Lausafjáráhætta
- Rekstraráhætta