Um ábyrgar fjárfestingar
• UFS greining á fjárfestingarkostum.
• Viðbragð og eftirlit með fjárfestingum út frá UFS þáttum.
UFS greining á fjárfestingarkostum
Greining á helstu UFS áhættum og mögulegum tækifærum á sviði sjálfbærni og loftslagsmála er mikilvægur þáttur í mati nýrra fjárfestinga hjá SL lífeyrissjóði. Sjóðurinn hefur þróað UFS áhættumat þess efnis sem er jafnframt hluti af almennu fjárfestingarferli sjóðsins. Ferlið verður í stöðugri þróun og mun taka breytingum í samræmi við helstu markaðs- og lagakröfur.
Sjóðurinn framkvæmir innra UFS áhættumat ásamt því að styðjast við ytra áhættumat fyrir nýja fjárfestingarkosti sem tekur mið af eðli fjárfestingarinnar hverju sinni. UFS áhættumat er lagt til grundvallar ákvarðanatöku fjárfestingarráðs ásamt annarri skjalagerð og er tekið fyrir á þeim vettvangi.
Sjóðurinn greinir enn fremur fjárfestingar sínar út frá því hvort þær flokkist sem áhrifa fjárfestingar (e. impact investments). Sem lið í því, þá leggur sjóðurinn sérstaka áherslu á að fjárfesta í innlendum grænum skuldabréfum sem viðurkennd eru af Nasdaq Iceland, sé ávöxtun þeirra sambærileg eða betri að teknu tilliti til áhættu umfram önnur sambærileg skuldabréf.
Viðbragð og eftirlit með fjárfestingum út frá UFS þáttum
Sjóðurinn beitir mismunandi aðferðum við eftirfylgni fjárfestinga út frá UFS þáttum, en sem dæmi þá hefur sjóðurinn sett sér hluthafastefnu fyrir fjárfestingar í innlendum hlutafélögum sem m.a. skilgreinir hvernig sjóðurinn hefur samskipti við hagaðila út frá UFS þáttum.
Upplýsingagjöf og samvinna
SL lífeyrissjóður leitast við að taka virkan þátt í samráðsvettvöngum um ábyrgar fjárfestingar, svo sem með þátttöku í IcelandSIF sem sjóðurinn er stofnaðili að. Auk þess horfir sjóðurinn til UN PRI viðmiðunarreglnanna og er hluti af alþjóðlegu samstarfi milli einka- og opinbera geirans (Climate Investment Coalition) sem er með það að leiðarljósi að auka grænar fjárfestingar. Markmið SL lífeyrissjóðs er að hlutfall grænna fjárfestinga í safni sjóðsins verði a.m.k. 7,5% í lok árs 2030.
SL lífeyrissjóður horfir til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í ábyrgum fjárfestingum sínum og horfir m.a. til þeirra markmiða sem sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á útfrá starfsemi og rekstri sjóðsins í þar tilgreindri stefnu. Frekari útfærsla um hvernig sjóðurinn metur fjárfestingar út frá heimsmarkmiðunum er að finna í verklagsreglum sjóðsins.