Markmið SL lífeyrissjóðs er að hámarka langtímaávöxtun eignasafna sjóðsins að teknu tilliti til áhættu með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi. Með ábyrgum fjárfestingum er átt við að horft  sé til umhverfislegra þátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta við mat, ákvörðun og eftirfylgni með fjárfestingum (UFS) sjóðsins.

Siðferðileg viðmið í fjárfestingum

SL lífeyrissjóður vill reyna að tryggja og sjá framþróun á sviði umhverfisþátta, á sviði félagslegra þátta og á sviði stjórnarhátta (UFS) í sínum fjárfestingum. Sjóðurinn er langtímafjárfestir sem leitast við að ná góðri ávöxtun á fjárfestingum sínum, að teknu tilliti til áhættu, en vill jafnframt vera ábyrgur fjárfestir. Áhersla á UFS í fjárfestingum á, að mati sjóðsins, að stuðla að sjálfbærni fyrirtækja og betri langtímaávöxtun.

Sjóðurinn beitir sér fyrir því að:

  • Veita aðhald með því að fá reglulega upplýsingar um stöðu UFS þátta, einkum skráðra innlendra hlutafélaga og erlendra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða í eigu SL lífeyrissjóðs. 
  • Bregðast við frábrigðum á uppbyggilegan og gagnrýninn hátt.
  • Leggja áherslu á að þeir aðilar og fyrirtæki sem stýra fjármunum fyrir sjóðinn eða hann fjárfestir í hafi sett sér stefnu varðandi UFS þætti sem sé fylgt. 

SL lífeyrissjóður nær þessu fram með eftirfarandi áherslum:
  Sjóðurinn hvetur til greinargóðrar upplýsingagjafar félaga sem skráð eru á opinberum innlendum verðbréfamarkaði og fjárfest er í, og að þau: 

  • Hafi umhverfis- og samfélagsstefnu sem er aðgengileg hluthöfum og almenningi. 
  • Gefi út árlega UFS skýrslu, sem getur verið hluti af ársskýrslu, byggða á leiðbeiningum Nasdaq eða sambærilegu, sem er yfirfarin af hlutlausum fagaðila.
  • Vinni árlega að umbótum þannig að mælikvarðar í UFS skýrslu sýni umbætur á milli ára.  
  • Skoði möguleika þess að taka upp viðeigandi umhverfis- og samfélagsstaðla, svo sem ISO 14001 og BREEAM. 
  • Fylgi leiðbeiningum Viðskiptaráðs um stjórnarhætti eða öðrum viðeigandi leiðbeiningum, er við eiga. 

Sjóðurinn gerir eftirfarandi kröfur til upplýsingagjafar frá erlendum sjóðum sem fjárfest er í: 

  • Að sjóðurinn fái reglulega upplýsingar um stöðu UFS þátta í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum sem sjóðurinn fjárfestir í.
  • Að sjóðurinn hafi ávallt aðgang að stefnu þessara sjóða um UFS þætti. 
  • Að sjóðurinn fái fyrirætlanir sjóðanna horft til framtíðar um frekari úrbætur varðandi UFS þætti eftir því sem SL lífeyrissjóður óskar. 

Sjóðurinn gerir eftirtaldar kröfur til  innlendra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða (á við fjárfestingar sem sjóðurinn ákveður frá 01.01.2021): 

  • Að þeir eða rekstraraðilar þeirra hafi sett sér stefnu varðandi UFS þætti.
  • Að SL lífeyrissjóður hafi ávallt aðgang að stefnu þessara sjóða/aðila um UFS þætti.  
  • Að sjóðirnir eða rekstaraðilar þeirra leiti leiða til frekari úrbóta og SL lífeyrissjóður hafi aðgang að þeim eftir því sem hann óskar.

Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á að fjárfesta í innlendum grænum skuldabréfum sem viðurkennd eru af Nasdaq Iceland sem slík sé ávöxtun þeirra sambærileg eða betri að teknu tilliti til áhættu umfram önnur sambærileg skuldabréf.  

Viðbragð og eftirlit sjóðsins felst í að:

  • Sjóðurinn rýnir gögn og greinir m.t.t. stöðu mála hvað varðar UFS hjá þeim aðilum sem sjóðurinn er með fjárfestingar hjá eða er með í skoðun að fjárfesta. 
  • Tengist fyrirtæki í eignasafni sjóðsins skráð á opinberum innlendum markaði broti á sviði UFS málefna er það markmið sjóðsins að beita sér sem eigandi þannig að látið verði af viðkomandi broti.  
  • Sjóðurinn mun fara fram á að gripið sé til viðeigandi ráðstafana í því skyni að tryggja að ekki komi til sambærilegra atvika aftur. Á þetta einnig við um innlenda sem erlenda verðbréfa- og fjárfestingarsjóði. 
  • Ef slíkar aðgerðir bera ekki fullnægjandi árangur mun sjóðurinn taka til skoðunar, með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi, sölu viðkomandi eignarhlutar í heild eða að hluta. 
  • Starfað er eftir skilgreindu viðbragðsferli einkum er snýr að óútskýrðum eða endurteknum frábrigðum í UFS þáttum í þeim fjárfestingum sem sjóðurinn hefur fjárfest í, byggt á stefnu viðkomandi fyrirtækis eða sjóðs.

SL lífeyrissjóður leitast við að taka virkan þátt í samráðsvettvöngum um ábyrgar fjárfestingar, svo sem með þátttöku í IcelandSIF sem sjóðurinn er stofnaðili að og auk þess horfir sjóðurinn til UN PRI viðmiðunarreglnanna.

SL lífeyrissjóður hefur aðgang að upplýsingaveitu þar sem framkvæmdar eru UFS áhættugreiningar fyrir innlendan hluta-og skuldabréfamarkað. Slíkur aðgangur gerir sjóðnum kleift að fylgjast nánar með og bæta sjálfbærnistöðu eignasafns síns.

 SL lífeyrissjóður er hluti af CIC samtökunum (Climate Investment Coalition) sem er alþjóðlegt samstarf milli einka- og opinbera geirans með það að leiðarljósi að auka grænar fjárfestingar. Gert er ráð fyrir því að hlutfall grænna fjárfestinga í safni sjóðsins verði a.m.k. 7,5% í lok árs 2030.

Samþykkt á stjórnarfundi 09.03.2023.

 

Vegna SFDR reglugerðar

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar (ESB) 2019/2088 („SFDR“) ber sjóðnum að lýsa því hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvörðunarferli hans. SL lífeyrissjóður hefur sett sér stefnu um Siðferðileg viðmið í fjárfestingum, sem mælir fyrir um kröfur sem sjóðurinn gerir til eigna í eignasafni sínu og viðbrögð við frávikum. Viðmiðin hafa enn fremur verið tekin upp í Fjárfestingastefnu sjóðsins. Komi fram við könnun á fjárfestingarkosti að hann uppfylli ekki viðmiðin leiðir það almennt til þess að ekki verður af fjárfestingu af hálfu sjóðsins. Í undantekningartilfellum er tekin ákvörðun um kaup, sé kosturinn fremstur meðal jafningja á sínu sviði. Í slíkum tilfellum beitir sjóðurinn sér með sérstökum hætti í samræmi við Hluthafastefnu.

Að svo stöddu telur sjóðurinn sig ekki hafa nægilega traust gögn til að geta greint frá helstu neikvæðu áhrifum fjárfestingaákvarðana sjóðsins á sjálfbærniþætti, í skilningi a-liðar 1. mgr. 4. gr. SFDR. Stefna sjóðsins er sú að hafa innleitt slíkt mat í fjárfestingarferli árið 2024. Sjóðurinn upplýsir því hér með að sem stendur tekur hann ekki tillit til, í skilningi 4. gr. SFDR, neikvæðra áhrifa fjárfestingarákvarðana á sjálfbærniþætti.