Opinbera viðmiðið um byrjun eftirlaunaaldurs og töku lífeyris er 67 ára og almennt hefjast starfslok vegna aldurs í kjölfarið, eða á bilinu 67-70 ára. Hins vegar er það orðið æ algengara að fólk kjósi að hefja töku lífeyris fyrr, jafnvel frá 60 ára aldri. Sama hvað, það mun alltaf borga sig að byrja að hugsa snemma um hvernig starfslok, sveigjanleg starfslok eða ekki gætu litið út fyrir þig. Lífeyriskerfi landsmanna getur verið mikill frumskógur við fyrstu sýn og því er það gott að byrja snemma að reyna að átta sig á því hvernig það virkar til að geta tryggt sér áhyggjulaust ævikvöld.

 

Hvernig virkar lífeyriskerfi landsins og lífeyrisréttindi eiginlega?

Lífeyriskerfinu á Íslandi má skipta upp í þrjá flokka eða stoðir, þar sem launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar eru með óbeina og beina skylduaðild að fyrstu tveimur flokkunum:

 

a) Almannatryggingakerfið, sem á að ná til allra launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga búsetta á Íslandi. Það á að tryggja lágmarksellilífeyri til æviloka en er háð öðrum lífeyrisgreiðslum og launagreiðslum. Greiðslurnar eru greiddar frá Tryggingastofnun (TR - ríkissjóður). Almannatryggingakerfið er gert til að ná til þeirra sem eiga lítil uppsöfnuð lífeyrisréttindi og því hefur ríkið ákveðið að greiðslur frá Tryggingastofnun séu tekjutengdar til að beina fjármunum til þeirra sem eru verst settir. Íslendingar verða sífellt betur settir hvað varðar lífeyri frá lífeyrissjóðunum og verður því minni þörf fyrir aðkomu Tryggingastofnunar þegar fram í sækir.

 

b) Samtrygging lífeyrissjóða, en í hana er öllum launþegum frá 16-70 ára skylt að borga. SL og aðrir lífeyrissjóðir eru hluti af þessu kerfi. Samtryggingin, eða ellilífeyririnn er í raun frestaðar launatekjur og er einnig vörn fyrir sjóðfélaga og fjölskyldur þeirra ef til tekjumissis kemur vegna áfalla eða andláts. Eru þær greiddar mánaðarlega til æviloka sjóðfélaga. Greiðslur frá lífeyrissjóðunum miðast við iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga í gegnum tíðina (hlutfall af launum) og hvernig lífeyrissjóðnum hefur gengið að ávaxta fé sjóðfélaga. Upphæðir þessa lífeyrisgreiðslna geta skert greiðslur frá Tryggingastofnun.

 

c) Séreignarsparnað, sem er erfanlegur og þín einkaeign.

    a. Séreign (eða viðbótarsparnaður), sem er þín einkaeign og ekki tekjutengd við Tryggingastofnun.

    b. Tilgreind séreign, sem er hluti af skylduiðgjaldi fyrir aukin réttindi og tekjutengd Tryggingastofnun.

 

Hversu hár er ellilífeyrir?

Ákveðnar fjárhagslegar breytingar geta orðið hjá okkur þegar við minnkum við okkur vinnu eða hættum alveg og því er gott að byrja á því að skoða hversu mikla framfærslu þú telur þig hafa þörf á mánaðarlega – hverjar eru núverandi tekjur, skuldir, eignir o.sv.frv. Skoðaðu svo hvernig ævilöngu lífeyrisréttindin þín líta út og í hvaða lífeyrissjóði þú hefur greitt, með því að t.d. skrá þig inn á sjóðfélagavef SL (eða hjá þeim lífeyrissjóði sem þú hefur aðild að). Þar geturðu slegið inn upplýsingar um hvernig mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur til þín geta litið út á mismunandi aldri, með því að slá inn aldur, núverandi laun og þegar áunnin réttindi. Hér færðu betri mynd á hvort að þær mánaðarlegu greiðslur endurspegli fjárhæðina sem þú telur þig þurfa þegar að töku lífeyris kemur. Þá getur verið gott að horfa til hvernig séreignarsparnaður getur brúað bilið betur fyrir þig. Á séreignarsparnað ertu í raun að fá 50 - 100% ávöxtun strax þar sem atvinnurekandi greiðir þér mótframlag er nemur 2%, ef þú leggur til 2 – 4%. Loks þarf að skoða ætlaðar lífeyrisgreiðslur í samhengi við aðrar tekjur; s.s. launatekjur eða fjármagnstekjur vegna ávöxtunar eignar á bankareikningi eða hlutabréfa o.s.frv. í samhengi við mögulega greiðsluþátttöku frá Tryggingastofnun.

Mánaðarlegar greiðslur úr séreign skerða ekki greiðslur frá TR

Þó svo að lífeyrisgreiðslurnar þínar og aðrar tekjur (fjármagnstekjur, laun) hafi áhrif á mögulega skerðingu ellilífeyris frá Tryggingastofnun, þá gildir það ekki um séreignarsparnað  sem er þín einkaeign og hefur engin tengsl við samtrygginguna. Þetta á þó ekki við um tilgreinda séreign, kjósir þú að greiða iðgjald til hennar en hún varð hluti af lögbundnu skylduiðgjaldi um  áramótin 2022-23. Takir þú ákvörðun að fá séreignina greidda út í heilu lagi frá lífeyrissjóði þá taka gildi önnur lögmál, t.a.m. fjármagnstekjur sem gætu haft áhrif á tekjutengingu við Tryggingastofnun, auk þess sem þarf þá mögulega að greiða hátekjuskatt.

Að taka út lífeyri 60 ára

Í einföldu máli lítur dæmið þannig út að ef þú ákveður að byrja að minnka við þig vinnu um sextugt og hefja töku lífeyris úr samtryggingu, þá munu mánaðarlegar ellilífeyrisgreiðslur lækka eða hækka í samræmi við flýtingu eða frestun á töku lífeyris. Sem sagt, ef þú flýtir töku, færðu lægri mánaðarlegar greiðslur og öfugt ef þú seinkar töku lífeyris. Ef þú hefur safnað í séreign, þá leggst sá sparnaður sem er þín einkaeign ofan á lögbundnar lífeyrisgreiðslur sem hrein viðbót – og þú getur í raun ráðið hversu mikið þú tekur út á hvaða tíma. Fyrir suma getur hentað að fá hærri greiðslur útborgaðar á fyrri hluta eftirlaunaaldurs; kannski hentar að borga skuldir snemma eða vilji er til að sinna áhugamálum og ferðalögum á meðan orkan leyfir. Hefðbundinn tekjuskattur er greiddur af séreign við úttekt eins og samtryggingu.

Skipting ellilífeyrissréttinda

Frá sextugu er líka hægt að fá 50% lífeyri eða skipta lífeyrisgreiðslum með maka, þ.e. að makinn fær þá helming lífeyris á móti sjóðfélaga. Þú getur þannig unnið hálfa vinnu á meðan þú ert enn að safna lífeyrisréttindum. Hafðu í huga að fyrir lífeyrissjóði skipta aðrar tekjur engu máli (þ.e. útgreiðslur skerðast ekki vegna annarra tekna), hins vegar skipta aðrar tekjur Tryggingastofnun öllu máli og skerðing getur orðið þar.

Spurðu okkur um lífeyrisréttindi

Upplýsingar í þessari grein eru ekki tæmandi, margt getur haft áhrif sem hver og einn þarf að huga að; eitthvað óvænt getur komið upp á sem getur breytt aðstæðum okkar og stundum áætlunum okkar fyrir vikið. Við hjá SL erum boðin og búin að veita þér ráðgjöf við þeim spurningum sem þú kannt að hafa.


 Heyrðu í okkur endilega í síma 510 7400 eða með tölvupósti á netfangið sl@sl.is og skoðum saman hvernig dæmið gæti litið út fyrir þig.
Þessi grein er skrifuð í desember 2023